Efnahagsmál

Hagfræðideild Landsbankans birtir hér yfirlit, greiningar og rannsóknir er snúa að þróun og horfum helstu hagvísa, svo sem verðbólgu, stýrivöxtum, hagvexti, atvinnuleysi og utanríkisviðskipum.

Vikubyrjun: mánudagurinn 1. september

Mikið er af áhugaverðum hagvísum í vikunni. Fyrr í dag birti Hagstofan fyrsta mat á þjónustuviðskiptum við útlönd á öðrum ársfjórðungi. Á morgun birtir Seðlabankinn upplýsingar um greiðslujöfnuð við útlönd á öðrum ársfjórðungi ásamt mati á erlendri stöðu þjóðarbúsins. Einnig er von á hagvísum á miðvikudag og föstudag.

Það helsta frá vikunni sem leið

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,24% milli mánaða.  Þetta var nokkurn veginn í samræmi við væntingar, en opinberar spár lágu á bilinu 0,1% til 0,3%. Við höfðum spáð 0,2% hækkun. Tólf mánaða breyting VNV er því 2,2% í ágúst, í samanburði við 2,4% í júlí. VNV án húsnæðis lækkar úr 1,4% í  1,2% og Kjarnavísitala 3 hækkar úr 2,8% í 3,2%.

EFTA dómstóllinn birti álit sitt í máli Gunnars V. Engilbertssonar gegn Íslandsbanka er varðar lögmæti verðtryggðra fasteignalána. Samkvæmt niðurstöðu dómstólsins leggur tilskipun ESB ekki almennt bann við verðtryggingu veðlána, heldur sé það landsdómstólsins að meta hvort umræddir skilmálar séu óréttmætir.

Hollenski Seðlabankinn seldi kröfur sínar í þrotabú gamla Landsbanka Íslands. Kaupandinn var þýski bankinn Deutsche Bank.

Hallinn á vöruskiptum við útlönd á fyrstu sjö mánuðum ársins nam 16,3 ma. kr. í samanburði við 15,1 ma. kr. afgang sama tímabil 2013. Fyrri tölur höfðu gert ráð fyrir 3,6 ma. kr. halla á fyrstu sjö mánuðum 2014, munurinn skýrist af breytingu í stöðlum í vöru- og þjónustuviðskiptum, en eldsneytiskaup innlendra flutningsfara erlendis (13 ma. kr.) telst nú til vöruskipta í stað þjónustu. Því má búast við aukningin í halla á vöruskiptajöfnuði leiðréttist að hluta af lægri gjöldum í þjónustuinnflutningi.

Seðlabanki Íslands (SÍ) birti upplýsingarit um erlenda verðbréfaeign innlendra aðila miðað við árslok 2013.

N1 (+6,3% í vikunni);  TM (+2,7%);  Sjóvá (+2,6%); VÍS (+1,9%);  Reginn (+1,0%);  Eimskip (+0,9%);   HB Grandi (+0,0%);  og Arion banki birtu uppgjör fyrir annan ársfjórðung. Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,3%.

Gengi krónunnar stóð óbreytt á móti evru (EURISK = 153,8; +0,0%), en veiktist á móti bandaríkjadal (USDISK = 117,0; +0,7%) og sterlingspundi (GBPISK = 194,0; +0,8%).

Mynd vikunnar

Hagstofa Íslands og Seðlabanki Íslands eru um þessar mundir að taka upp nýja staðla við útreikninga hagtalna um vöru- og þjónustuviðskipti við útlönd, greiðslujöfnuð og þjóðhagsreikninga. Meðal annars er gerð sú breyting að nú verður tekið tillit til ólöglegrar starfsemi svo sem eiturlyfja, vændis og smygls við útreikning á landsframleiðslu. Þetta er í samræmi við það sem aðrar Evrópuþjóðir eru að gera. Fyrst um sinn mun Hagstofan byggja mat sitt á vinnu Sigurlilju Albertsdóttir hagfræðings við stofnunina á umfangi ólöglegrar starfsemi hér á landi. Á myndinni má sjá mat hennar á framlagi til hagvaxtar á þremur þáttum hér á landi í samanburði við tölur frá Danmörk, Svíþjóð og Tékklandi.

Vikan framundan 

Mikið er af áhugaverðum hagvísum í vikunni. Fyrr í dag birti Hagstofan fyrsta mat á þjónustuviðskiptum við útlönd á öðrum ársfjórðungi ásamt uppfærðum tölum um 2013. Á morgun birtir Seðlabankinn upplýsingar um greiðslujöfnuð við útlönd á öðrum ársfjórðungi ásamt mati á erlendri stöðu þjóðarbúsins miðað við lok fjórðungsins. Á miðvikudag birtir Hagstofan bráðabirgðatölur um vöruskipti við útlönd í ágúst og á föstudag tölur um gistinætur á hótelum í júlí.

Tvö útboð eru í vikunni, Seðlabankinn heldur gjaldeyrisútboð á morgun og á föstudag er fyrirhugað útboð ríkisbréfa hjá Lánamálum ríkisins.

Á miðvikudag birtir Seðlabankinn fundargerð vegna seinustu vaxtaákvörðunar peningastefnunefndar.

Hagtölur og markaðsupplýsingar

Hagtölur 1. september 2014

Innlendar markaðsupplýsingar 1. september 2014

Erlendar markaðupplýsingar 

Hvað fannst þér um þessa grein? Láttu okkur vita

Lesa grein

Hagsjá: Fasteignamarkaður í jafnvægi

Það sem af er þessu ári hefur meðalfjöldi viðskipta með íbúðarhúsnæði verið mjög nálægt meðalviðskiptum síðustu 11 áranna þar á undan. Það er því óhætt að fullyrða að viðskipti með íbúðarhúsnæði hafi tekið vel við sér á höfuðborgarsvæðinu á síðustu árum og séu að nálgast það sem mætti kalla eðlilegt árferði.

Samantekt

Það sem af er þessu ári hefur meðalfjöldi viðskipta með íbúðarhúsnæði verið mjög nálægt meðalviðskiptum síðustu 11 áranna þar á undan. Það er því óhætt að fullyrða að viðskipti með íbúðarhúsnæði hafi tekið vel við sér á höfuðborgarsvæðinu á síðustu árum og séu að nálgast það sem mætti kalla eðlilegt árferði.

Meðalárshækkun fasteignaverðs á höfuðborgarsvæðinu frá upphafi ársins 2012 hefur verið rúm 7%. Árshækkunin fór yfir 11% nú í vor en hefur síðan farið niður í 6% nú í júlí. Hækkunartakturinn er því á svipuðum slóðum nú og um mitt síðasta ár. Kúfurinn á verðhækkunum sem varð til í vor er því nánast horfinn. 7% meðalárshækkun fasteignaverðs yfir tveggja og hálfs árs tímabil er mikil hækkun í sögulegu samhengi. Á  þessum tíma var meðalárshækkun fjölbýlis tæp 8% og samsvarandi tala fyrir sérbýli rúm 6%. Á sama tíma var verðbólgan að jafnaði um 3,4% þannig að raunverðshækkunin hefur verið töluverð.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Fasteignamarkaður í jafnvægi

Hvað fannst þér um þessa grein? Láttu okkur vita

Lesa grein

Vikubyrjun: mánudagurinn 25. ágúst

Í febrúar gerði Seðlabankinn ráð fyrir verðbólgukúf 2015. Samkvæmt yfirlýsingu peningastefnunefndar frá þeim tíma myndu nafnvextir bankans að óbreyttu þurfa að hækka. Í maí og nú aftur í ágúst lækkaði bankinn spá sína um framvindu verðbólgu. Peningastefnunefnd telur að núverandi vaxtastig dugi til að halda verðbólgu nálægt markmiði.

Það helsta frá vikunni sem leið

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað að halda vöxtum bankans óbreyttum. Yfirlýsingu nefndarinnar, Peningamál 2014/3, kynningarefni vegna ákvörðunarinnar og niðurstöðu nýjustu væntingakönnunar markaðsaðila má nálgast á vef Seðlabankans.

Í vikunni birtu Fjarskipti (-2,2% í vikunni), Íslandsbanki og Landsbankinn uppgjör fyrir annan ársfjórðung.

Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu í júlí hækkaði um 0,3%. Tólf mánaða hækkun vísitölunnar mælist 6,4%, þar af hefur fjölbýli hækkað um 7,3% en sérbýli 3,8%.

Vísitala launa í júlí hækkaði um 0,4% milli mánaða og er tólf mánaða hækkun vísitölunnar 5,9%. Tólf mánaða breyting kaupmáttar launa mælist 3,5%.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,9%. Mest hækkuðu bréf í Össuri (+5,1%) og Högum (+3,4%), meðan að bréf í Icelandair (-4,9%) og Fjarskipti (-2,2%) lækkuðu mest. 

Gengi krónunnar styrktist á móti evru (EURISK = 153,9; -0,7%) og sterlingspundi (GBPISK = 192,6; -0,3%) í vikunni, en veiktist lítillega á móti bandaríkjadal (USDISK = 116,3; +0,2%).

Mynd vikunnar

Á myndinni sjáum við þróun á verðbólguspám Seðlabanka Íslands frá nóvember 2013. Í febrúarspá bankans var gert ráð fyrir verðbólgukúf 2015. Samkvæmt yfirlýsingu peningastefnunefndar frá þeim tíma myndu nafnvextir bankans að óbreyttu þurfa að hækka. Eins og sést lækkaði bankinn spá sína um framvindu verðbólgunnar í maí og nú aftur í ágúst. Í yfirlýsingu peningastefnunefndarinnar vegna seinustu vaxtaákvörðunar kemur fram að nefndin telji að, ef forsendur þjóðhags- og verðbólguspár Seðlabankans haldi, þá dugi núverandi vaxtastig til að halda verðbólgu nálægt markmiði út spátímabilið. Flestir markaðsaðilar höfðu áður, í ljósi fyrri verðbólguspáa bankans og fyrri yfirlýsinga nefndarinnar, reiknað með hækkun stýrivaxta á næsta ári.

Vikan framundan

Á miðvikudag birtir Hagstofan ágústmælingu vísitölu neysluverðs, en við spáum 0,2% hækkun milli mánaða. Af öðrum áhugaverðum hagtölum má nefna ágústmælingu Væntingavísitölu Gallup sem kemur út á morgun, niðurstöður úr mánaðarlegri vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar fyrir júlí sem birt verður á miðvikudag og uppfærðar tölur um vöruskipti við útlönd á fyrstu sjö mánuðum ársins sem Hagstofan birtir á föstudag. Nokkuð mörg fyrirtæki birta uppgjör fyrir annan ársfjórðung í vikunni. Eftir lokun markaða í dag birtir Sjóvá; á þriðjudag birtir VÍS; á miðvikudag birta Arion banki, HB Grandi og Reginn; á fimmtudag Eimskip og N1; og TM birtir loks á föstudag.

Hagtölur og markaðsupplýsingar

Hagtölur 25. ágúst 20142014

Innlendar markaðsupplýsingar 25. ágúst

Erlendar markaðsupplýsingar 25. ágúst

Hvað fannst þér um þessa grein? Láttu okkur vita

Lesa grein

Hagsjá: Óbreyttir stýrivextir

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum óbreyttum. Stóru tíðindi dagsins eru að nefndin telur nú að ef forsendur þjóðhags- og verðbólguspár Seðlabankans halda muni núverandi vaxtastig duga til að halda verðbólgu nálægt markmiði út spátímabilið, þ.e. til ársloka 2016.

Samantekt

Peningastefnunefnd hefur ákveðið að halda vöxtum óbreyttum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu nefndarinnar sem birtist í Peningamálum í morgun. Niðurstaðan er í samræmi við spá markaðsaðila sem allir bjuggust við óbreyttum vöxtum. Stóru tíðindi dagsins eru hins vegar að nefndin telur nú að ef forsendur þjóðhags- og verðbólguspár Seðlabankans halda muni núverandi vaxtastig duga til að halda verðbólgu nálægt markmiði út spátímabilið, þ.e. til ársloka 2016. Flestir markaðsaðilar höfðu áður, í ljósi fyrri yfirlýsinga nefndarinnar, reiknað með hækkun stýrivaxta á næsta ári.

Peningastefnunefndin setur þó ákveðinn fyrirvara við þessu, þ.e. að kröftugur vöxtur innlendrar eftirspurnar á komandi misserum og vaxandi spenna á vinnumarkaði gætu leitt til aukins verðbólguþrýstings og orðið til þess að nafnvextir Seðlabankans þyrftu að hækka frekar.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Óbreyttir stýrivextir

Hvað fannst þér um þessa grein? Láttu okkur vita

Lesa grein

Hagsjá: Óvænt niðurstaða reksturs ríkisins 2013

Nýútkominn ríkisreikningur gefur lokaniðurstöðu fyrir rekstur og efnahag ríkisins á árinu 2013. Niðurstaðan er mun betri en reiknað var með, fyrst og fremst vegna um 25 ma.kr. tekjufærslu sem tengist eignaukningu ríkisins í Landsbankanum og halli ársins er því um 0,7 ma.kr.

Samantekt

Nýútkominn ríkisreikningur gefur lokaniðurstöðu fyrir rekstur og efnahag ríkisins á árinu 2013. Niðurstaðan er mun betri en reiknað var með, fyrst og fremst vegna um 25 ma.kr. tekjufærslu sem tengist eignaukningu ríkisins í Landsbankanum og halli ársins er því um 0,7 ma.kr.

Skuldastaðan er enn mjög erfið. Skuldir standa nokkurn veginn í stað á nafnvirði, en að raunvirði fara þær lækkandi. Hlutfall heildarskulda ríkisins af vergri landsframleiðslu fór yfir 117% á árinu 2011, en lækkaði niður í 115% á árinu 2012 og í 108% á árinu 2013. Þetta er þróun í rétta átt en engu að síður eru skuldirnar mjög háar í sögulegu samhengi og einnig í samanburði við þær þjóðir sem við viljum bera okkur saman við. Vaxtakostnaður ríkisins er mikil byrði og var nálægt 75 ma.kr. 2013. Til samanburðar má benda á að rekstur Landspítalans á því ári kostaði rúma 40 ma.kr. Vaxtakostnaður ársins 2013 var því um 80% hærri en rekstrarkostnaður spítalans.

Meginniðurstaðan varðandi ríkisreikninginn fyrir 2013 er að þróunin sé á réttri leið, en árangurinn þurfi að vera mun betri til þess að sett markmið náist.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Óvænt niðurstaða reksturs ríkisins 2013

Hvað fannst þér um þessa grein? Láttu okkur vita

Lesa grein


Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér eru unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær eru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara. | Lesa allan fyrirvarann