Efnahagsmál

Hagfræðideild Landsbankans birtir hér yfirlit, greiningar og rannsóknir er snúa að þróun og horfum helstu hagvísa, svo sem verðbólgu, stýrivöxtum, hagvexti, atvinnuleysi og utanríkisviðskipum.

Vikubyrjun: mánudagurinn 24. nóvember 2014

Landsbankinn boðar til opins morgunfundar í Silfurbergi Hörpu miðvikudaginn 26. nóvember kl. 8.30-10.00 í tilefni af útgáfu Þjóðhags, ársrits Hagfræðideildar bankans. Boðið verður upp á léttar veitingar frá kl. 8.00.

Hagspá Landsbankans kynnt á fimmtudagsmorgun í Hörpu

Landsbankinn boðar til opins morgunfundar í Silfurbergi Hörpu miðvikudaginn 26. nóvember kl. 8.30-10.00 í tilefni af útgáfu Þjóðhags, ársrits Hagfræðideildar bankans. Boðið verður upp á léttar veitingar frá kl. 8.00.

Dagskrá og skráning er á vef bankans


Vikan framundan

Á miðvikudag birtir Hagstofan nóvembermælingu vísitölu neysluverðs, við gerum ráð fyrir 0,2% lækkun milli mánaða.

Þrjú félög birta uppgjör í vikunni, N1 (mán.), Reginn (þri.) og HB Grandi (mið.).

Á þriðjudag birtir Gallup nóvembermælingu væntingavísitölunnar, á miðvikudag birtir Hagstofan niðurstöður úr mánaðarlegri vinnumarkaðsrannsókn sinni, fimmtudag birtir Hagstofan upplýsingar um nýskráningar og gjaldþrot hlutafélaga og á föstudag uppfærðar tölur um vöruskipti við útlönd fyrstu tíu mánuði ársins.

Það helsta frá vikunni sem leið

Samkvæmt fundargerð peningastefnunefndar var ekki einhugur í nefndinni í byrjun mánaðarins þegar hún ákvað óvænt að lækka vexti bankans, heldur greiddi einn nefndarmaður atkvæði gegn tillögu seðlabankastjóra þar um. Vildi sá nefndarmaður halda vöxtum bankans óbreyttum. Auk þess hefði annar meðlimur nefndarinnar kosið að bíða með vaxtabreytingu fram í desember.

Arion banki, Íslandsbanka, Sjóvá og Eimskip birtu öll uppgjör.

Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu var óbreytt í október frá síðasta mánuði, meðan vísitala byggingarkostnaðar hækkaði um 0,2%.

Vísitala launa hækkaði um 0,7% milli mánaða í október.

Lánamál ríkisins (LR) tóku tilboðum að nafnvirði 4,5 ma. kr. í útboði á föstudaginn. Alls er útgáfa ríkisbréfa á árinu því orðin 50,1 ma. kr. að söluvirði, en áætluð útgáfa á árinu var 50 ma. kr.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 2,3% í vikunni, en hefur lækkað um 1,9% síðan um áramótin. Mest hækkuðu bréf í TM (+4,3% í vikunni; -19,7% frá áramót) og Fjarskiptum (+3,6% í vikunni; +32,3% frá áramótum) en bréf í Sjóvá (-1,6% í vikunni) voru þau einu sem lækkuðu.

Krónan styrktist á móti evru (EURISK = 153,6; -0,9% í vikunni) en stóð nokkurn vegin í stað á móti bandaríkjadal (USDISK = 124,0) og breska pundinu (GBPISK = 194,1).

Mynd vikunnar

Eins og sést á myndinni hefur reiðufé í umferð aukist langt umfram verðlag síðan í árslok 2007. Ýmsar ástæður kunna vera fyrir þessu, svo sem aukinn fjöldi ferðamanna, aukin svört atvinnustarfsemi eða að heimilin geymi meira af sparnaði sínum í reiðufé. Í nýjustu útgáfu Fjármálainnviða sem Seðlabankinn birti í vikunni kemur fram að þessi mikla aukning sjáist ekki í veltutölum SÍ um reiðufé, sem gæti bent til þess að þetta skýrist aðallega af þriðju ástæðunni, þ.e. að heimilin geymi meira af sparnaði sínum í reiðufé en áður.

 

Hagtölur og markaðsupplýsingar

Hagtölur 24. nóvember 2014

Innlendar markaðsupplýsingar 24. nóvember 2014

Erlendar markaðsupplýsingar 24. nóvember 2014

Hvað fannst þér um þessa grein? Láttu okkur vita

Lesa grein

Hagsjá: Fasteignamarkaður – logn á undan stormi?

Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu var óbreytt í október frá síðasta mánuði. Verð á fjölbýli lækkaði um 0,1% og verð á sérbýli hækkaði um 0,3%. Árshækkun fjölbýlis er nú 8,4% en hækkun síðustu 6 mánaða 3,2%.

Samantekt

Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu var óbreytt í október frá síðasta mánuði. Verð á fjölbýli lækkaði um 0,1% og verð á sérbýli hækkaði um 0,3%. Árshækkun fjölbýlis er nú 8,4% en hækkun síðustu 6 mánaða 3,2% þannig að nokkuð hefur dregið úr verðhækkunum á síðustu mánuðum.

Viðskipti með íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu hafa að vanda verið nokkuð sveiflukennd síðustu mánuði. Salan náði miklum toppi í júlí, en hefur síðan dalað aftur. Sé hins vegar litið á 12 mánaða meðaltal, sem sýnir langtímaþróunina, hafa viðskiptin næstum staðið í stað síðustu fjóra mánuði. Það er því spurning hvort þessi stöðugleiki í viðskiptum (sé litið til 12 mánaða meðaltals) sé logn á undan stormi sem kann að koma eftir að niðurstaða skuldaleiðréttinga er orðin ljós.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Fasteignamarkaður – logn á undan stormi?

Hvað fannst þér um þessa grein? Láttu okkur vita

Lesa grein

Vikubyrjun: mánudagurinn 17. nóvember 2014

Samkvæmt verðmælingum okkar hefur smásöluverð á bensíni lækkað um 3,5% frá miðjum júní. Eins og sést á mynd vikunnar hefur heimsmarkaðsverð á olíu (Brent) og smásöluverð í Bandaríkjunum lækkað mun meira í íslenskum krónum talið.

Vikan framundan

Sjóvá og Arion banki birta uppgjör fyrir 3. ársfjórðung á þriðjudaginn. Á miðvikudag birtir Seðlabankinn fundargerð peningastefnunefndar vegna seinustu vaxtaákvörðunar. Á fimmtudag birtir Íslandsbanki síðan uppgjör og á föstudag er fyrirhugað útboð á ríkisbréfum.

Af áhugaverðum hagvísum sem koma í vikunni má nefna vísitölu íbúðarverðs á höfuðborgarsvæðinu (þri.), upplýsingar um leiguverð (mið.), vísitölu byggingarkostnaðar (fim.) og launavísitöluna (fös.).

Það helsta frá vikunni sem leið

Lánamál ríkisins (LR) birtu markaðsupplýsingar í nóvember. LR hélt útboð á ríkisvíxlum á fimmtudaginn og útboð á ríkisbréfum á föstudaginn. Reykjavíkurborg hélt skuldabréfaútboð á miðvikudag.

Hagstofan birti þjóðhagsspá á föstudag. Hagstofan lækkaði spá sína lítillega og gerir nú ráð fyrir að hagvöxtur á árunum 2014-2018 verði að meðaltali 2,7% í stað 3,0% í júlíspá sinni.

Skráð atvinnuleysi í október var 3,2% í samanburði við 3,9% atvinnuleysi október 2013 samkvæmt tölum frá Vinnumálastofnun.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,3% í vikunni og hefur lækkað um 4,1% síðan um áramót. Mest hækkuðu bréf í VÍS (+2,3% í vikunni, -20,9% frá áramótum) og Össuri (+2,0% í vikunni, +59,0% frá áramótum) en bréf í Regin (-2,8% í vikunni, -10,6% frá áramótum) lækkaði mest.

Mynd vikunnar

Samkvæmt verðmælingum okkar hefur smásöluverð á bensíni lækkað um 9,5% frá miðjum júní. Á myndinni sjáum við hlutfallslega breytingu á smásöluverði á Íslandi á bensíni, smásöluverð í Bandaríkjunum (í íslenskum krónum) og heimsmarkaðsverð á Brent olíu (einnig í íslenskum krónum) frá 13. júní. Eins og sést hafa þessi verð lækkað mismikið. 

ATH: við útreikninga á þróun bensínverðs hérlendis við gerð Vikubyrjunar slæddist inn meinleg villa. Ef lækkun sl. föstudag er tekin með í reikninginn hefur bensínverð lækkað um 9,5% frá því um miðjan júní, ekki 3,5% eins og ranglega kom fram þá. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.

Hagtölur og markaðsupplýsingar

Hagtölur 17. nóvember 2014

Innlendar markaðsupplýsingar 17. nóvember 2014

Erlendar markaðsupplýsingar 17. nóvember 2014

Hvað fannst þér um þessa grein? Láttu okkur vita

Lesa grein

Hagsjá: Spáum 0,2% lækkun VNV

Hagfræðideild Landsbankans spáir 0,2% lækkun vísitölunnar milli mánaða. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan lækka úr 1,9% í 1,4%. Helstu lækkunarvaldar eru flugfargjöld og bensínverð, en húsnæðisverð er til hækkunar. Búast má við því að verðbólgan færist í aukana í kjölfar kjarasamninga um mitt ár 2015.

Samantekt

Hagstofan birtir nóvembermælingu vísitölu neysluverðs (VNV) miðvikudaginn 26. nóvember nk. Hagfræðideild Landsbankans spáir 0,2% lækkun vísitölunnar milli mánaða. Gangi spáin eftir mun ársverðbólgan lækka úr 1,9% í 1,4%. Helstu lækkunarvaldar eru flugfargjöld og bensínverð, en húsnæðisverð er til hækkunar. Frekar lítill verðbólguþrýstingur er í kortunum það sem eftir lifir árs. Búast má við því að verðbólgan færist í aukana í kjölfar kjarasamninga um mitt ár 2015.

Lesa Hagsjána í heild

Hagsjá: Spáum 0,2% lækkun VNV

Hvað fannst þér um þessa grein? Láttu okkur vita

Lesa grein

Vikubyrjun: mánudagurinn 10. nóvember 2014

Í fyrri fundargerðum peningastefnunefndar Seðlabankans í ár voru viðvarandi háar verðbólguvæntingar nefndar sem rök gegn vaxtalækkun. Væntingarnar hafa nú lækkað nokkuð og hefur það eflaust haft einhver áhrif á að bankinn ákvað loks að lækka vexti.

Vikan framundan

Skuldaleiðréttingin verður kynnt í Hörpu klukkan 13.30 í dag, mánudag. 

Eftir lokun markaða í dag birta Lánamál ríkisins Markaðsupplýsingar fyrir nóvember, á fimmtudag verður útboð á ríkisvíxlum og á föstudag er fyrirhugað útboð á ríkisbréfum.

Lítið er af áhugaverðum hagvísum í fyrri hluta vikunnar. Á fimmtudag birtir Seðlabankinn upplýsingar um greiðslumiðlun í október. Á föstudag birtir Vinnumálastofnun skráð atvinnuleysi í október og Hagstofan birtir þjóðhagsspá.

Mynd vikunnar

Á myndinni sjáum við tvo mælikvarða á verðbólguvæntingar, annars vegar mun á ávöxtunarkröfu óverðtryggðs ríkisbréfs (RIKB 22) og verðtryggðs (RIKS 21) af svipaðri lengd (appelsínugula línan) og hins vegar svör úr könnunum sem Seðlabanki Íslands gerir ársfjórðungslega meðal markaðsaðila á skuldabréfamarkaði um hvað þeir telja að ársverðbólgan verði mikil eftir tólf mánuði (ljósbláa línan). Í fyrri fundargerðum peningastefnunefndar í ár voru viðvarandi háar verðbólguvæntingar nefndar sem rök gegn vaxtalækkun þrátt fyrir að verðbólgan væri komin niður fyrir verðbólgumarkmið. Eins og sést hafa væntingar nú lækkað nokkuð og hefur það eflaust haft einhver áhrif á að bankinn ákvað loks að lækka vexti í liðinni viku.

Það helsta frá vikunni sem leið

Seðlabanki Íslands (SÍ) lækkaði vexti bankans óvænt um 0,25 prósentur. Í niðurlagi yfirlýsingar peningastefnunefndar kom fram að ef launahækkanir í komandi kjarasamningum verða í samræmi við verðbólgumarkmið gætu skapast forsendur fyrir frekari lækkun nafnvaxta. Hins vegar gætu miklar launahækkanir og vöxtur eftirspurnar grafið undan nýfengnum verðstöðugleika og valdið því að hækka þurfi vexti á ný.

Samhliða vaxtaákvörðuninni birti SÍ Peningamál 2014/4  með nýrri verðbólgu- og þjóðhagsspá. Bankinn lækkaði spá sínu um hagvöxt 2014 lítillega miðað við seinustu spá (ágúst) en gerir enn ráð fyrir nokkuð kröftugum vexti á næstu þremur árum, drifnum áfram af aukinni einkaneyslu og fjármunamyndun. Hins vegar gerir bankinn ráð fyrir neikvæðu framlagi utanríkisviðskipta til hagvaxtar næstu ár.

Verðbólguvæntingar þeirra markaðsaðila sem tóku þátt í nóvemberkönnun SÍ lækkuðu nokkuð frá ágúst könnun bankans.

Samkvæmt bráðabirgðatölum var 12,3 ma. kr. afgangur af vöruskiptum við útlönd í október. Þetta er talsverður viðsnúningur, en á fyrstu níu mánuðum ársins var að meðaltali 1,8 ma. kr. halli af vöruskiptum. Munar hér mest um aukinn útflutning sjávarafurða (5,4 ma. kr.) og iðnaðarvara (8,9 ma. kr.) miðað við meðaltal fyrstu níu mánaða ársins. Óverulegur munur var á innflutningi í mánuðinum miðað við fyrstu níu mánuði ársins.

Raungengi miðað við hlutfalslegt verðlag hækkaði um 0,4% milli mánaða í október. Það hefur verið mjög stöðugt síðustu níu mánuði og er 7,3% hærra en á sama tíma 2013.

Um 67 þúsund ferðamenn fóru um Leifsstöð í októbermánuði í samanburði við 53 þúsund manns í október 2013 sem 26% aukning milli ára. Bretar voru fjölmennastir eða 24,5% af heildarfjölda en næstir komu Bandaríkjamenn (12,8%) og Norðmenn (8,1%).

Í október flutti Icelandair 213 þús. farþega í millilandaflugi sem er aukning um 15% miðað við sama tímabil í fyrra.

Fjarskipti birtu árshlutauppgjör fyrir 3. ársfjórðung. Af félögunum í kauphöllinni eiga Sjóvá, Eimskip, HB Grandi og N1 eftir að birta.

Landsbankinn hagnaðist um 20 ma. kr. á fyrstu níu mánuðum ársins 2014.

Í kjölfar vaxtalækkunarinnar lækkaði krafan á ríkisbréfum í nokkuð miklum viðskiptum á miðvikudag. Krafan á óverðtryggðum ríkisbréfum lækkaði um á bilinu 25 punktar (RIKB 31) og 41 punktar (RIKB 16) á miðvikudag, en krafan á verðtryggða bréfinu RIKS 21 lækkaði um 23 punkta. 

Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,5% í vikunni og hefur lækkað um 4,4% síðan um áramót. Flest bréf hækkuðu í vikunni, mest hækkuðu Fjarskipti (+9,7% í vikunni, +26,6% frá áramótum) í kjölfar góðs uppgjörs. Einungis tvö félög lækkuðu í vikunni, HB Grandi og Hagar.

Hagtölur og markaðsupplýsingar

Hagtölur 10. nóvember 2014

Innlendar markaðsupplýsingar 10. nóvember 2014

Erlendar markaðsupplýsingar 10. nóvember 2014

Hvað fannst þér um þessa grein? Láttu okkur vita

Lesa grein


Fyrirvari

Innihald og form þeirra greininga sem birtast hér eru unnið af starfsmönnum Hagfræðideildar Landsbankans hf. og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem þær voru unnar. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar þær eru dagsettar, en þær geta breyst án fyrirvara. | Lesa allan fyrirvarann